Innlent

Tvær ungar stelpur brenndust við Geysi

„Íslenskir krakkar þekkja hættuna af heitu vatni en þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir að það sé 100°C heitt vatn flæðandi meðfram gangstéttinni. Það er ekkert sem varar fólk við," segir Börkur Hrólfsson leiðsögumaður.

Tvær ungar erlendar stelpur af brenndu sig í sjóðandi heitum læk á Geysissvæðinu í Haukadal um þrjúleytið í dag. Börkur segir merkingar þurfa að vera miklu stærri og áberandi á svæðinu.

„Merkingar þurfa að vera miklu stærri og áberandi. Að þarna sé sjóðandi vatn, ekki bara heitt, heldur sjóðandi. Þetta slys gerðist þar sem er nýbyrjað að taka upp á því að búa til brauð og sjóða egg fyrir gesti í hverunum," segir Börkur sem reyndar var ekki sjálfur á svæðinu í dag.

Kollegi hans, Hólmfríður Rán Sigvaldadóttir, var á svæðinu í dag þegar slysið varð. Aðstoðaði hún fjölskylduna og stúlkurnar tvær. Fréttastofa hefur ekki náð í Hólmfríði í dag enda er hún með hóp ferðamanna á Suðurlandi. Hún hafði þó rætt við Börk eftir að slysið átti sér stað.

„Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að lítil börn vaði út í vatnið eins og mér skilst að hafi gerst í þessu tilfelli," segir Börkur. Hann minnir á slys sem gerðist á svæðinu árið 2010 þegar tveggja ára stúlka brenndist illa.

„Það hefur ekkert verið bætt síðan, hvorki viðvörunarmerkingar né annað."

Börkur segir fyrir neðan allar hellur hvernig staðið sé að öryggismálum á Geysissvæðinu. Hann segir einnig eins og vanti alla viðbragðsáætlun ef slys verði á svæðinu.

„Á fjölsóttasta hverasvæði Íslands þar sem verður tugi slysa á ári ætti að vera viðbragðsáætlun. Fólk þyrfti að vera þjálfað í því hvað eigi að gera," segir Börkur um starfsfólk í Haukadal. Hann efast um að rétt hafi verið staðið að málum hvað varðar tilkynningu slysa og minnir á að öll slys eigi að tilkynna til lögreglu.

„Ég efast stórlega um að það hafi verið gert. Ég hugsa að fólkið sem rekur svæðið vilji helst þagga niður í svona málum. Þetta er ekki góð auglýsing," segir Börkur.

Fréttastofa Vísis hafði samband við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi síðdegis. Staðfesti starfsmaður að komið hefði verið með stelpurnar en um minniháttar bruna hafi verið að ræða, annars stiga bruna á mjög litlum hluta fóta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.