Fótbolti

Blatter gagnrýnir fyrirkomulagið á EM 2020

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að fyrirkomulagið á EM 2020 verði keppninni til minnkunar.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er með hugmyndir um að halda keppnina í þrettán mismunandi borgum víða um Evrópu í stað þess að halda mótið í sama landinu.

Verður það gert þar sem 60 ár verða liðin frá fyrsta Evrópumeistaramótinu en ákvörðun sambandsins hefur þó verið gagnrýnd víða.

„Ég sagði hr. Platini [forseti UEFA] að Gaddafi ofursti hefði stungið upp á samskonar áætlun við mig þegar hann Libýa bauðst til að halda HM 2010," sagði Blatter í viðtali við þýska blaðið Kicker.

„Stórmót í knattspyrnu eiga að fara fram í sama landinu. Það skapar samstöðu og gleði. Sjáið bara HM 2006 í Þýskalandi."

„Þetta verður í raun ekki Evrópukeppni en ég veit í raun ekki hvernig ber að líta á þetta. EM með þessu fyrirkomulagi er sálarlaust fyrir mér."

UEFA mun tilkynna í september á næsta ári hvaða borgir muni halda keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×