Fótbolti

Eiður Smári varamaður í sigurleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Club Brugge.
Eiður Smári í leik með Club Brugge. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður þegar að Club Brugge vann Lierse, 3-0, í belgísku úrvalsdeildinni.

Eiður spilaði í rúmar 20 mínútur í kvöld en þá fór fram lokaumferð hefðbundnu deildarkeppninnar í Belgíu. Nú skiptist deildin í þrjá hluta en efstu sex liðin munu nú berjast um belgíska meistaratitilinn.

Club Brugge er í þeim hópi en liðið endaði með 54 stig, þrettán stigum á eftir toppliði Anderlecht. Zulte-Waregem, lið Ólafs Inga Skúlasonar, hafnaði í öðru sæti með 63 stig.

Ólafur Ingi spilaði í kvöld allan leikinn er lið hans hafði betur gegn Mechelen á útivelli, 3-2.

Stig þessara sex liða verða nú helminguð og þau munu mætast innbyrðis, heima og að heiman, næstu vikurnar.

Liðin í 7.-14. sæti skiptast nú í tvo riðla en þau munu keppast um eitt laust sæti í Evrópudeild UEFA. Tvö neðstu liðin fara svo í umspil um sæti í efstu deild gegn liðum úr B-deildinni.

Stefán Gíslason spilaði ekki með Leuven í dag er liðið gerði markalaust jafntefli við Kortrijk. Leuven hafnaði í tíunda sæti með 36 stig.

Arnar Þór Viðarsson spilaði að venju allan leikinn fyrir Cercle Brugge sem tapaði fyrir Beerschot, 3-1. Cercle hefur verið í botnsæti deildarinnar í allan vetur og tapaði síðustu níu leikjum sínum í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×