Enski boltinn

Aron Einar með 200 deildarleiki í Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Aron Einar Gunnarsson náði þeim merka áfanga í dag að spila sinn 200. deildarleik á Englandi er Cardiff vann 2-0 sigur á Sheffield Wednesday.

Aron Einar er aðeins 23 ára gamall og áfanginn er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir. Hann er á sínu fimmta tímabili í Englandi en hann kom fyrst til Coventry árið 2008. Þar var hann í þrjú ár áður en hann fór til Cardiff.

Aron Einar hefur skorað sautján mörk á þessum fimm árum, þar af sjö á núverandi tímabili. Cardiff er á toppi ensku B-deildarinnar og ekki ólíklegt að Aron Einar muni því spila í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Alls er hann kominn með 212 deildarleiki á ferlinum en hann var aðeins sextán ára er hann lék sinn fyrsta deildarleik með Þór frá Akureyri í 1. deildinni. Árið 2006 fór hann til AZ Alkmaar, þar sem hann var í tvö ár.

Aron Einar hefur spilað 243 keppnisleiki með sínum liðum á ferlinum og 33 A-landsleiki þar að auki. Hann er landsliðsfyrirliði og verður sjálfsagt í eldlínunni með Íslandi gegn Slóveníu ytra á föstudagskvöldið. Þá mætast liðin í undankeppni HM 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×