Fótbolti

Kolbeinn fór meiddur af velli í sigri Ajax

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn í leik með Ajax um síðustu helgi.
Kolbeinn í leik með Ajax um síðustu helgi. Nordic Photos / Getty Images
Kolbeinn Sigþórsson þurfti að fara af velli í 3-2 sigri Ajax á AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni í dag vegna smávægilegra meiðsla.

Kolbeinn mun hafa fundið fyrir óþægindum í kálfa og farið af velli af þeim sökum. Hann spilaði í 56 mínútur fyrir Ajax í dag en óvíst er hvort þetta hafi áhrif á þátttöku hans í landsleik Íslands gegn Slóveníu ytra á föstudagskvöldið.

Siem de Jong skoraði tvö marka Ajax í dag og Daley Blind eitt. Markus Henriksen og Jozy Altidore skoruðu mörk AZ.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður í liði AZ á 81. mínútu. Aron Jóhannsson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Ajax komst í dag aftur á topp hollensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið er með eins stigs forystu á PSV og Feyenoord. AZ er í fjórtánda sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×