Enski boltinn

Arsenal losar sig við Andre Santos

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Santos.
Andre Santos. Mynd/Nordic Photos/Getty
Vinstri bakvörðurinn Andre Santos hefur væntanlega spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal á tímabilinu því hann er farinn til Brasilíu til að ganga frá lánsamningi við Gremio.

Arsenal keypti Andre Santos frá tyrkneska félaginu Fenerbahce á 6,2 milljónir í ágúst 2011 en hann hefur aðeins byrjað þrettán leiki í ensku úrvalsdeildinni síðan þá.

Andre Santos hefur aldrei fundið sig hjá Arsenal og átti í raun aldrei framtíð hjá félaginu eftir að hann skipti um treyju við Robin van Persie á göngu þeirra til hálfleiks í tapi á móti Manchester United 3. nóvember.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er samt í vandræðum með vinstri bakvarðarstöðuna og þá sérstaklega í Meistaradeildinni þar sem nýi spænski bakvörðurinn, Nacho Monreal, er ekki löglegur. Kieran Gibbs verður frá í fjórar til sex vikur í viðbót.

Það má því búast við því að Thomas Vermaelen spili sem vinstri bakvörður á móti Bayern München í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×