Enski boltinn

Mills: Mancini verður rekinn ef þeir tapa um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City.
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danny Mills, fyrrum varnarmaður Manchester City, spáir því að Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, þurfi að taka pokann sinn tapi City-liðið bikarleik sínum á móti Leeds um helgina.

Manchester City er tólf stigum á eftir nágrönnum sínum í United í deildinni og liðið datt út úr Evrópukeppninni fyrir áramót. Enski bikarinn er eini titilinn sem liðið á nú möguleika á.

„Það er mikil pressa á Mancini. Það lítur út fyrir það að þeir séu búnir að klúðra möguleikanum á því að halda meistaratitlinum og ég velti því fyrir mér hvað gerist ef þeir tapa í bikarnum á móti Leeds. Ég held að Mancini verði rekinn ef liðið tapar þeim leik," sagði Danny Mills við BBC.

„Manchester United er með tólf stiga forskot og það er bara of mikið. Ég held hvort sem er að Roberto Mancini verði látinn fara í sumar ef þeir ná ekki að vinna enska meistaratitilinn. Ef þeir detta strax út úr bikarnum þá hljóta eigendurnir að láta hann taka pokann sinn strax," sagði Mills.

„Það er mikil undiralda hjá City og þó að allt líti ágætlega út utan frá þá bíður bullandi eldhaf eftir því að komast fram í dagsljósið," sagði Mills dramatískur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×