David Cameron, forsætisráðherra Breta, viðurkennir að hann hafi ekki skipað nógu margar konur í embætti ráðherra í ríkisstjórn sína. Hann segir að kona sín hafi hvatt sig til þess að gefa fleiri konum tækifæri.
Cameron hefur verið gagnrýndur töluvert fyrir það að einungis fjórir ráðherrar, í 27 manna ríkisstjórn hans, eru konur. Hann hét því fyrir síðustu kosningar að tryggja að þriðjungur ráðherranna yrði konur. "Við eigum langt í land, það eru alls ekki nógu margar konur við ríkisstjórnarborðið," segir Cameron.
Cameron ræddi þetta á ferðalagi sínu í Mumbai, en hann var spurður út í stöðu kvenna í stjórnmálum og í viðskiptalífi. Fréttavefur Telegraph segir frá þessu í frétt sem ber yfirskriftina "Cameron viðurkennir kvennavandræði". Ceri Goddard, framkvæmdastjóri jafnréttissamtakanna, Fawcett Society segir líka við Telegraph að staðan sem uppi er sé vandamál sem Cameron verði að kljást við.

