Enski boltinn

Villas-Boas: Við gátum ekki leyft Gylfa að fara frá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik á móti Manchester United.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik á móti Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Reading reyndi að kaupa íslenska landsliðsmanninn Gylfi Þór Sigurðsson frá Tottenham á lokadegi félagsskiptagluggans í gær en Tottenham vildi ekki selja þrátt fyrir að Gylfi hafi ekki verið fastamaður í liðinu í vetur og að tilboð Reading hafi verið mun hærra en Tottenham borgaði Hoffenheim fyrir hann í haust.

„Gylfi er leikmaður sem við höfum mikla trú á. Við trúum því að hann eigi framtíð hér," sagði Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham við BBC.

„Við gátum ekki leyft Gylfa að fara frá okkur," bætti Villas-Boas við. Gylfi hefur aðeins verið einu sinni í byrjunarliði Tottenham í síðustu sextán deildarleikjum og spilaði aðeins í samtals sextán mínútur í undanförnum þremur leikjum Spurs í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni fyrir Tottenham á sínu fyrsta tímabili á White Hart Lane en hefur átt þrjár stoðsendingar. Hann var með sjö mörk og fimm stoðsendingar í 18 leikjum með Swansea í ensku úrvalsdeildinni í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×