Enski boltinn

Doni fékk hjartaáfall hjá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alexander Doni segir að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki getað spila fótbolta að undanförnu sé að hann fékk hjartaáfall í sumar.

Doni var á mála hjá Liverpool en aðilar ákváðu að rifta samningi hans. Var það gert í sátt og samlyndi og Doni gekk svo til liðs við Botafogo í heimalandi sínu, Brasilíu.

Doni hefur reyndar dvalið í Brasilíu síðan í sumar en forráðamenn Liverpool sögðu ávallt að það væri af persónulegum ástæðum.

„Ég dó næstum því. Ég fékk hjartaáfall í um 25 sekúndur," sagði hann við fjölmiðla í Brasilíu.

„Ég fór til eins færsta hjartalæknis Evrópu sem skoðaði mig vel. Hann bað mig um að taka mér hvíld í nokkra mánuði. Ég verð því að bíða fram í apríl næstkomandi en þá get ég byrjað að spila aftur," sagði hann.

Doni spilaði alls fjóra leiki fyrir Liverpool en á að baki tíu landsleiki með Brasilíu og var í landsliðinu á HM 2010.

Liverpool hefur neitað að tjá sig um málið við enska fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×