Enski boltinn

Gascoigne er í lífshættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Umboðsmaður fyrrum knattspyrnumannsins Paul Gascoigne segir að líf hans sé í hættu eftir að hann byrjaði að drekka aftur.

Gascoigne steig á svið á góðgerðarsamkomu á fimmtudagskvöldið. Hann var drukkinn og brotnaði niður á sviðinu, áður en hann var leiddur í burtu.

Hann hefur áður talað opinskátt um baráttu sína við áfengissýkina en árið 2008 gripu yfirvöld í taumana og skikkuðu hann í meðferð.

„Hann verður ekki þakklátur mér fyrir að segja þetta en hann þarf umsvifalaust á hjálp að halda," sagði umboðsmaðurinn Terry Baker við BBC.

„Ég veit ekki hvað hefur komið fyrir síðan ég hitti hann fyrir jól. Þá var hann í góðu lagi. En hann er ekki í lagi núna og ég held að hann viti það sjálfur."

„Líf hans er alltaf í hættu því hann er áfengissjúklingur. Kannski getur enginn bjargað honum - ég veit það ekki. Ég veit það hreinlega ekki."

Baker hefur starfað með Gascoigne síðustu tvö ár og aldrei séð hann drekka fyrr en nú. „Við höfum miklar áhyggjur af honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×