Enski boltinn

Redknapp: Odemwingie of heiðarlegur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Peter Odemwingie, leikmaður West Brom, var mikið í fréttunum á lokadegi félagaskiptagluggans um mánaðamótin. Harry Redknapp, stjóri QPR, hefur komið honum til varnar.

Odemwingie vildi ólmur komast í burtu frá West Brom en forráðamenn liðsins voru tregir til að selja hann. Hann taldi þó að eitthvað væri að gerast í sínum málum þegar að QPR kom til sögunnar og hélt hann til Lundúna til að gangast undir læknisskoðun.

Hins vegar náðu félögin tvö ekki saman og þegar Odemwingie kom á Loftus Road var honum ekki hleypt inn og átti hann engra annarra kosta völ en að snúa aftur til West Bromwich.

Steve Clarke, stjóri West Brom, var gáttaður á öllu saman og sagði hegðun Odemwingie brjálæðsilega.

„Ótal leikmenn hafa gert margfalt verri hluti en Peter Odemwingie," skrifaði Redknapp í vikulegum dálki sínu í The Sun. „Skítkastið sem hann hefur fengið síðustu dagana er því ótrúlegt."

„Ég vona svo sannarlega að þeir sem eru að atast í honum núna gefi honum tækifæri því hans einu mistök voru að vera of heiðarlegur."

„West Brom gaf okkur upphæð og strákurinn, sem og umboðsmaður hans, hélt að þetta væri allt klappað og klárt. Það var því ekki óviðeigandi að koma til Lundúna."

„Hann vildi bara vera viss um að kaupin gætu gengið í gegn áður en lokað yrði á félagaskipti. Þetta hefði verið mun verra hefðu félögin samþykkt kaupin en hann fallið á tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×