Enski boltinn

Balotelli: Allt slæmt við England

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Balotelli með Adriano Galliani, varaforseta AC Milan.
Balotelli með Adriano Galliani, varaforseta AC Milan. Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli mun ekki sakna Englands af orðum hans að dæma. Hann gekk nýverið í raðir AC Milan frá Manchester City.

„Það góða við England? Æfingarnar á Carrington, þegar ég hitti þjálfara minn og liðsfélaga," sagði Balotelli við fjölmiðlamenn á Ítalíu.

„Það slæma? Allt annað - fjölmiðlar, veðrið, maturinn, hvernig maður keyrir," bætti hann við.

Balotelli hefur margsinnis komið í fréttirnar fyrir uppátæki sín bæði innan vallar sem utan. „Ég vil frekar láta verkin tala inn á vellinum frekar en að segja mikið hér. Ég er ánægður með að vera kominn til Milan en það hefur alltaf verið minn draumur."

„Ég er nú nálægt fjölskyldu minni og vinum og þó svo að Manchester sé ekki það langt í burtu er þetta betra."

Hann segir þó ensku úrvalsdeildina í sérflokki. „Þetta er ótrúleg deild og sú besta í heimi, ásamt því að vera með frábæra velli og áhorfendur. En ég veit ekki hvort ég spili aftur í henni síðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×