Enski boltinn

Klaufaleg mistök Reina kostuðu Liverpool sigurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sergio Agüero bjargaði stigi fyrir Manchester City sem gerið 2-2 jafntefli við Liverpool á heimavelli í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Edin Dzeko kom Manchester City yfir á 23. mínútu leiksins þegar hann afgreiddi fyrirgjöf James Milner í netið.

En Daniel Sturridge jafnaði metin sex mínútum síðar með föstu skoti utan teig. Hann fagnaði ekki markinu þar sem hann var á mála hjá City í sex ár frá fjórtán ára aldri.

Pablo Zabaleta var svo næstum búinn að skora sjálfsmark þegar hann ætlaði að renna boltanum aftur á Joe Hart í marki City. Hart missti hins vegar af boltanum sem lak framhjá stönginni og út af.

Steven Gerrard virtist svo hafa tryggt Liverpool sigurinn þegar hann skoraði með frábæru skoti utan teigs á 78. mínútu. En aðeins fimm mínútum síðar kom jöfnunarmark City og það var í skrautlegri kantinum.

Pepe Reina, markvörður Liverpool, fór þá í skógarferð en missti boltann til Agüero sem skoraði í autt markið. Færið var hins vegar mjög þröngt en Agüero var fljótur að átta sig og skoraði gott mark.

Liverpool er í sjöunda sæti deildarinnar með 36 stig en City er í öðru sæti deildarinnar með 53 stig. Forysta Manchester United á toppnum er því nú níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×