Enski boltinn

Mancini: Forysta United ekki of stór

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að titilbaráttunni sé ekki lokið þrátt fyrir að forysta Manchester United á toppnum sé nú tíu stig.

City tapaði tveimur stigum í toppbaráttunni í dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við Liverpool. City-menn geta reyndar þakkað Pepe Reina, markverði Liverpool, fyrir stigið en jöfnunarmark heimamanna kom eftir skógarhlaup hans.

Liverpool skoraði fyrra mark sitt eftir umdeilt atvik. Edin Dzeko lá meiddur í grasinu en dómari leiksins stöðvaði ekki leikinn. Leikmenn Liverpool héldu áfram og uppskáru mark.

„Það voru mistök gerð fyrir fyrra markið þeirra. Ef þetta hefði komið fyrir hitt liðið hefði þetta verið rautt spjald, en nú sá dómarinn ekki neitt. Mér fannst þó úrslitin sanngjörn," sagði Mancini.

Agüero skoraði jöfnunarmark City úr afar þröngu færi. „Það eru ekki margir sem hefðu getað skorað svona mark en mér finnst samt að bæði hann og Dzeko hefðu getað spilað betur í dag. Við spiluðum ekki vel."

„Okkur hefur gengið ágætlega síðustu mánuðina og spilað vel í öllum leikjum. En við vorum mjög taugaóstyrkir í dag og ég veit ekki af hverju. En titilbaráttan er ekki búin. Það skiptir ekki máli hvort að það muni sjö stigum eða níu. Ég held að við getum náð þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×