Innlent

Flensutoppnum ekki náð segir sóttvarnarlæknir

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Haraldur Briem.
Haraldur Briem.
Heldur hefur dregið úr fjölgun flensutilfella hér á landi en þrátt fyrir það hefur toppnum þó ekki verið náð segir sóttvarnalæknir.

Óvissustigi var lýst yfir á Landspítalanum á föstudag vegna inflúensu, nóróveiru og RS-vírusfaraldurs og er það enn í gildi. Um fjörutíu voru í einangrun á spítalanum í gær og svo virðist sem fjöldinn sé óbreyttur í dag að sögn Más Kristjánssonar yfirlæknis smitsjúkdómalækninga.

Fleiri tugir starfsmanna hafa verið kallaðir á aukavakt vegna álags, tvær deildir sem venjulega eru lokaðar um helgar hafa verið opnaðar og ættingjar sjúklinga eru nú beðnir um að koma ekki í heimsókn á spítalann nema í brýnustu nauðsyn.

Svo virðist sem rólegra sé á bráðamóttökunni í dag miðað við það sem á undan hefur gengið en Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir þó að flensutilfellum sé enn að fjölga.

„Það eru ekki tvöföldun á tilfellum eins og var á milli vikna fyrst. Þetta er aukning en það dregur semsagt úr brattanum í þessu en við erum ekki þar með sagt búin að ná toppnum," segir Haraldur.

Haraldur býst við að inflúensa og RS-vírus eigi eftir að halda áfram að greinast þennan mánuðinn og eitthvað fram í febrúar. „Ef maður byggir á reynslu fyrri ára. Þetta gengur yfir á svona fjórum til átta vikum," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×