Enski boltinn

Potts á sjúkrahúsi eftir þungt höfuðhögg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Potts liggur á vellinum í kvöld.
Potts liggur á vellinum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Dan Potts, leikmaður West Ham, var fluttur á sjúkrahús í kvöld eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg í leik liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það tók dágóðan tíma að hlúa að Potts á vellinum áður en hann var borinn út af. Sam Allardyce, stjóri West Ham, staðfesti svo eftir leik að honum yrði haldið á sjúkrahúsinu í kvöld.

„Honum líður ekki vel. Vonandi er þetta bara heilahristingur og ekkert meira. Hann var ringlaður og vissi ekki hvar hann var," sagði Allardyce.

„Hann fékk þungt höfuðhögg og svo aftur þegar hann lenti í jörðinni. Við verðum að bíða frekari fregna af honum."

Potts er einungis átján ára gamall varnarmaður og spilaði sína fyrstu leiki í aðalliði félagsins á síðasta tímabili og var lánaður til Colchester United í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×