Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps - Notaði 15 kílóa stól og munnhörpu í árásinni

Tuttugu og fjögurra ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa í febrúar á síðasta ári ruðst í heimildarleysi inn á heimili í litlu sveitarfélagi á norðausturhluta landsins.

Manninum er gefið að sök að hafa kastað stórum steini í gegnum rúðu á húsinu og brotið sér þannig leið inn í stofu hússins. Í ákærunni segir að þar hafi hann veist að öðrum manni, slegið hann og sparkað í höfuð og búk, traðkað á höfði hans og barið hann ítrekað með 15,5 kílóa þungum stól með fimmarma fæti í líkama og höfuð. Þá segir að hann hafi slegið hann ítrekað í höfuð og andlit með munnhörpu.

Þá hafi hann næst farið um húsnæðið og hent niður örbylgjuofni, brauðrist, kaffikönnum og ýmsu lauslegu sem skemmdist eða ónýttist. Hann hafi einnig hent niður byssuskáp sem féll á kommóðu sem brotnaði.

Sá sem fyrir árásinni varð hlaut heilablæðingu, nefbrot á tveimur stöðum, brot á vanga- og kinnkjálkabeinum, mikið mar á andliti og augum, mörg sár á andliti, sár aftan á baki, mar á baki og brjóstkassa og tvö rifbeinsbrot hægra megin.

Hann fer fram á tæplega fjórar milljónir í miskabætur.

Málið verður flutt í Héraðsdómi Norðurlands eystra 21. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×