Innlent

Kosið um rammaáætlun á morgun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ellefu breytingartillögur hafa verið lagðar fram á Alþingi við tilllögu um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Atkvæðagreiðsla fer fram á Alþingi á morgun en skiptar skoðanir eru um málið innan stjórnarflokkanna.

Alþingi kemur saman á ný á morgun eftir jólafrí en fyrsta mál á dagskrá er atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúrusvæða - hina svokölluðu rammaáætlun.

Sérfræðihópur sem vann að tillögu um rammaáætlun lauk vinnu um mitt ár 2011. Sérstök ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar gerði hins vegar breytingar á tillögum hópsins og færði sex virkjunarkosti á Suðurlandi úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Þingmenn sjálfstæðisflokks og framsóknar hafa gagnrýnt þessar breytingar og telja að telja að þær hafi gerðar á pólitískum forsendum en ekki faglegum.

Jón Gunnarsson, þingmaður sjálfstæðisflokks, sagði í samtali við fréttastofu í dag að það verði fyrsta verk sjálfstæðismanna í ríkisstjórn að vinda ofan af þessum breytingum.

Alls hafa ellefu breytingartillögur verið lagðar fram en þær snúa allar að því að færa virkjunarkosti í og úr bið-, nýtingar- og verndarflokkum.

Innan samfylkingarinnar eru einnig skiptar skoðanir um málið. Nokkrir þingmenn flokksins hafa sett fyrirvara við sitt samþykki þar á meðal Kristján L. Möller.

Það er því ekki víst að rammaáætlun verði samþykkt í núverandi mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×