Innlent

Vetrarparadísin Ísland að skila árangri

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tæplega hundrað og áttatíu þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland síðastliðið haust og fjölgaði þeim um fjörutíu þúsund milli ára. Framkvæmdastjóri Íslandsstofu segir að aukin landkynning erlendis sé byrjuð að skila árangri.

Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að því að auka áhuga ferðamanna á Íslandi utan hefðbundins ferðatíma. Þetta hefur skilað sér í mikilli aukningu á komu erlendra ferðamanna yfir vetrartímann. Þannig komu rúmlega fjörutíu þúsund fleiri ferðamenn til Íslands í haust miðað við sama tímabili árið 2011.

Framkvæmdastjóri Íslandsstofu sem rekur verkefnið Ísland allt árið - segir að aukin landkynning erlendis sé byrjuð að skila árangri. Tæplega fjörtutíu prósent af heildaraukningu ferðamanna síðasta árs átti sér stað síðustu fjóra mánuði ársins.

„Það er markvisst búið að kynna Íslands erlendis sem vetrarparadís," segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. „Hvetja menn til að koma til Íslands utan háannarinnar. Og það eru fjölmargir aðilar sem gera það. Þetta er samhæft verkefni sem margir taka þátt í. Svo eru margir aðrir sem eru að sinna þessu: flugfélögin, markaðsskrifstofur úti á landi og fyrirtæki sjálf auðvitað."

Alls komu tæplega 180 þúsund erlendir ferðamenn til Íslands í haust - eða álíka margir og heimsóttu Ísland allt árið 1994.

„Ef fjölgunin verður svona mikil næstu árin þá nálgumst við hratt þetta takmark, milljón gesti á ári. Það myndi gerast sirka árið 2014 eða 2015. Til þess að geta tekið á móti þeim fjölda þurfum við að byggja upp innviðina og taka svolítið á því hvernig við stýrum umferðinni, bæði yfir árið eins og við erum að gera núna og síðan um landið. En þetta verkefni er ekkert sem er ógerlegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×