Innlent

Allt gert til að halda í hjúkrunarfræðingana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
„Við erum að gera allt sem hægt er að gera til þess að sem flestir af þessum einstaklingum snúi til baka," segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, um þá hjúkrunarfræðinga sem hafa sagt upp störfum.

„Það er náttúrlega augljóst mál að þetta er starfsfólk sem við þurfum á að halda. En ef að svo færi að þetta fólk myndi allt ganga út þá þarf náttúrlega hér að endurskipuleggja alla þá þjónustu sem er veitt og það verður kannnski í einhverjum tilfellum lágmarksþjónusta í raun og veru. Þetta er náttúrlega alvarlegt mál enda tökum við því mjög alvarlega," segir hún. „Við reynum allt sem við getum til að tryggja hér þjónustu en það er auglóst að það yrði hér væntanlega dregið mjög saman og bara sinnt því sem bráðast væri," segir hún.

Þeir 280 hjúkrunarfræðingar sem hafa sagt upp einskorðast við þrjú svið spítalans. Þar er um að ræða skurðlækningasvið, lyflækningasvið og kvenna- og barnasvið. Engir hjúkrunarfræðingar á geðsviði og bráðasviði hafa sagt upp störfum. Sigríður segist ekki geta skýrt þetta. „Ég hef í fljótu bragði ekki getað gert það. Það eru náttúrlega einstaklingar sem segja upp störfum og þetta hefur lagst svona," segir hún.

Hún segir að Landspítalinn muni gera allt sem hægt er til að halda hjúkrunarfræðingunum, en staðan sé flókin. „Þetta er ekki kjaradeila heldur uppsagnir einstakra hjúkrunarfræðinga en það hefur verið í gangi endurskoðun á stofnanasamningum og sú vinna er í gangi. Það er reglulega fundað hér með samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga," segir hún. Allir vilji leysa þennan vanda.

Hún segir þó að spítalinn þurfi viðbótarframlag frá ríkinu ef nýir stofnanasamningar muni fela í sér aukinn kostnað. „Hér á Landspítalanum er ekki fjármagn til að standa straum af viðbótarkostnaði vegna stofnanasamninga," segir Sigríður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×