Innlent

Sérsveitin réðst til atlögu við Outlaws

JHH skrifar
Lögreglan lagði hald á efni til sprengiugerðar, haglabyssu, loftskammbyssu, skotfæri og fíkniefni í aðgerðum á höfuðborgarsvæðinu í gær gegn Outlaws-vélhjólagenginu.

Efni, sem lögreglan telur að hægt sé að nýta til sprengjugerðar, fannst bæði í félagsaðstöðu Outlaws sem og á heimili eins félagsmanna. Hjá sama manni var einnig að finna loftskammbyssu og var hún tekin í vörslu lögreglu. Þá fundust haglabyssa og skotfæri í félagsaðstöðu Outlaws, en byssan reyndist stolin.

Þrír meðlimir Outlaws, en mennirnir eru á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldri, voru handteknir í þessum aðgerðum, en allir hafa þeir áður komið við sögu hjá lögreglu. Á heimili eins þeirra var ennfremur lagt hald á ætluð fíkniefni í söluumbúðum. Yfirheyrslur yfir mönnunum stóðu yfir í gær og í dag, en þeir eru nú lausir úr haldi lögreglu.

Við þessar aðgerðir og húsleitir naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og sprengileitarhunds, auk fíkniefnaleitarhunda frá tollinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×