Lífið

Pvc-klæðnaður í öllum regnbogans litum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Helgi og Beate undirbúa auglýsingu á ólafsfirskum ullarsíðbrókum.
Helgi og Beate undirbúa auglýsingu á ólafsfirskum ullarsíðbrókum. Mynd/Einkasafn
„Sum þessara trjáa eru meira að segja svo heimaræktuð að fræið var sótt á bernskuslóðir Beate í Norður-Noregi af jólatrjáasölunum sjálfum á sínum tíma,“ segir Helgi Þórsson sem ásamt konu sinni, Beate Stormo, heldur jólabasar í Populus Tremula í Listagilinu á Akureyri. Þar taka þau saman framleiðslu ársins, eins og þau hafa gert undanfarin ár, og selja meira að segja heimaræktuð jólatré. Ýmsan annan varning er einnig að finna á basarnum.

„Af helsta varningi má nefna eldsmíðað skart og svokallaða konuhnífa auk þess sem stór eldsmíðaður kertastjaki í fuglslíki er falur fyrir sanngjarnt verð. Þá má geta þess að Beate hefur fengist við skinnaverkun lengi og stundum í kompaníi með Lene Zachariassen sem einmitt er á basarnum með sitthvað sniðugt úr heimasútuðu skinni og hrosshárum. Ekki má heldur gleyma skinnhúfum með kanínufeldi, náttúrulega úr eigin ræktun. Þá má finna vatnslitamyndir eftir mig og skuggalegar jólasveinamyndir eftir Aðalstein bróður minn á sýningunni,“ segir Helgi og veit ekki hvort hann á að kalla basarinn basar eða sýningu.

„Svona sýning væri náttúrulega ekki sjálfri sér lík ef ekki væru veruleg pönkáhrif á sveimi. Þau birtast ekki síst í máluðum bolum og flippuðum pvc-klæðnaði í öllum regnbogans litum.“

Eldsmíðaður fullvaxinn kertastjaki.
Basarinn er opinn alla helgina og á mánudag frá klukkan 13 til 18 en lengur á Þorláksmessu. Boðið verður upp á glögg og lifandi tónlist á Þorláksmessukveld meðan hljóðfæraleikarar og birgðir endast. Í dag verður Beate við eldsmíðar á staðnum frá klukkan 14 til 16 ef veður leyfir og á sama tíma verður sett upp tískusýning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.