Innlent

Umboðsmaður ber ekki út fólk

Heimir Már Pétursson skrifar
Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara segir embættið ekki hafa neina lagaheimild til að bera fólk út af heimilum sínum.
Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara segir embættið ekki hafa neina lagaheimild til að bera fólk út af heimilum sínum. mynd/stefán
Svanborg Sigmarsdóttir upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara segir embættið ekki standa fyrir því að fólk sé borið út af heimilum sínum, eins og fram kom í máli Vilhjálms Bjarnasonar framkvæmdastjóra Hagsmunasamtaka heimilanna í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Svanborg segir Umboðsmann skuldara ekki hafa lagaheimildir til slíkra aðgerða, en reyni að ná sem bestum samningi um greiðsluaðlögun fyrir skjólstæðinga sína við kröfuhafa.

„Þá þarf oft að skoða hvort fólk geti staðið undir afborgunum veðskulda sem hvíla á eignum þeirra og ef fólk getur ekki staðið undir þeim afborgunum þarf oft að selja eignir til að ná samningi. En við erum ekki að henda fólki út, það er af og frá,“ segir Svanborg.

Hins vegar beri Umboðsmaður skuldara oft skilaboð á milli skuldara og kröfuhafa þegar verið sé að reyna að ná samningum þegar greiðslugeta sé ekki fyrir hendi og ekki hægt að ná samningum með öðrum hætti en sölu eigna.

Vilhjálmur Bjarnason gagnrýnir líka að ríkisstjórnin hafi ekki stöðvað nauðungaruppboð á eignum fólks sem er með lán sem dæmd hafi verið ólögleg. Ríkisstjórnin ætti að stöðva nauðungarsölur slíkra eigna á meðan beðið sé aðgerða sem ríkisstjórnin hafi lofað fyrir skuldug heimili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×