Innlent

Væntingar Hagsmunasamtaka heimilanna til ríkisstjórnarinnar dvína

Heimir Már Pétursson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna
Vilhjálmur Bjarnason formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórnin stöðvi nú þegar nauðungarsölu á húseignum fólks með lán sem dæmd hafi verið ólögleg og stöðvi Umboðsmann skuldara í því að bera fólk út af heimilum sínum. Samtökin lengir eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Í dag eru 100 dagar frá því ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Vilhjálmur Bjarnason formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna segir að ríkisstjórnin hafi brugðist þeim loforðum sem stjórnarflokkarnir gáfu í kosningabaráttunni í vor.

„Já, þeir hafa brugðist að því leitinu til að það er ekkert komið fram sem þeir töluðu um og lofuðu í kosningabaráttunni. Það er búið að setja nefndir og setja nefndir til að fylgjast með nefndunum og alls konar hluti, en ekkert komið fram. Sérstaklega finnst okkur athugavert að ekki sé búið að stöðva nauðungarsölu og gjaldþrot á meðan beðið er boðaðra aðgerða,“ segir Vilhjálmur.

Það hefði ríkisstjórnin átt að vera búin að gera fyrir löngu vegna lána sem búið sé að dæma ólögleg.

„Það þarf líka að stöðva umboðsmann skuldara í að henda fólki út af heimilum sínum á sama grundvelli. Hann er að því núna í stórum stíl að henda fólki út úr húsum sínum og þá fer fólk bara á hreppinn eins og kallað er,“ segir Vilhjálmur.

Svo þurfi að gera þeim sem gerðir hafi verið gjaldþrota mögulegt að taka mál þeirra upp að nýju þegar búið sé að dæma lán sem hvíldu á eignum þeirra ólögleg.

Hefur ríkisstjórnin valdið ykkur vonbrigðum, eða hafið þið enn trú á að hún muni standa við loforðin?

„Ég verð að viðurkenna fyrir mína hönd alla vega að ég hef trú á að þeir vilji gera þetta, ætli sér að gera þetta og ég vona að þeir ætli sér að gera þetta. En vissulega minkar vonin, trúin og væntingarnar þegar jafn sjálfsagður hlutur eins og að stöðva nauðungarsölu og gjaldþrot á meðan verið er að bíða eftir aðgerðum sem eiga að koma í veg fyrir að fólk jafnvel þurfi að fara í gjaldþrot. Það er mjög sérstakt að stöðva það ekki.Sérstaklega í ljósi þess að það er ekki hægt að fá til baka nauðungarsölu og gjaldþrot eins og lögin eru í dag,“ segir Vilhjálmur Bjarnason formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×