Innlent

Aðbúnaður kvenlækningadeildar eins og árið 1956

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Regína segir starfsfólk kvenlækningadeildar vinna við afleitar aðstæður.
Regína segir starfsfólk kvenlækningadeildar vinna við afleitar aðstæður. Mynd/VG
„Ég var hjúkrunarnemi sumarið 1956, og í mínum huga hefur ekki breyst mikið hérna síðan þá," segir Regína Stefnisdóttir, kona á áttræðisaldri sem hefur legið á kvenlækningadeild Landspítalans síðan 19. desember.

Hún ber aðbúnaði deildarinnar ekki góða söguna, og segir sjúklinga og starfsfólk þurfa að smeygja sér framhjá hvert öðru á þröngum göngunum.

„Það eru sex einstaklingar inni á einni stofu hérna, það er ekki pláss fyrir hjólastóla eða göngugrindur, og klósettdyrnar eru svo þröngar að sjúklingur með vökvastatíf þarf að sæta lagi að komast inn á klósettið."

Regína segir starfsfólkið yndislegt, en vinna eins og hamstra á hjóli við afleitar aðstæður. „Inni á stofunum eru túbusjónvörp hangandi á veggjunum sem eru svo pínulítil að það getur ekki nokkur maður horft á þau," bætir hún við, en Regína hefur unnið við hjúkrunarkennslu í meira en fimmtíu ár.

Undanfarið hefur styrktarfélagið Líf staðið fyrir átaki fyrir bættri aðstöðu og þjónustu kvenlækningadeildarinnar. Göngugarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir gekk á Suðurpólinn og safnaði um leið áheitum fyrir félagið.

„Ég skora á fólk sem er aflögufært að sýna þessu átaki stuðning," segir Regína að lokum. „Það sannarlega veitir ekki af. Að vekja athygli á þessu er það minnsta sem ég get gert fyrir þessa deild."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×