Innlent

Truflandi rafmagnsgirðing á ábyrgð eiganda

Þorgils Jónsson skrifar
Nautgripabónda á Vestfjörðum hefur verið gert að bera kostnað af því að færa rafmagnsgirðinu í landi hans, sem truflar símalínu.
Nautgripabónda á Vestfjörðum hefur verið gert að bera kostnað af því að færa rafmagnsgirðinu í landi hans, sem truflar símalínu. Fréttablaðið/Vilhelm
Nautgripabóndi einn á Vestfjörðum þarf að bera kostnaðinn af því að breyta uppsetningu rafmagnsgirðingu á landareign sinni, að mati Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), en girðingin hefur um árabil valdið truflunum á símsambandi á nærliggjandi bæjum.

Í frétt á vef PFS segir að truflanirnar hafi lýst sér í smellum sem hafi gert símtöl illmöguleg auk þess sem þær áttu það til að hægja á, eða stöðva internettengingu.

Við skoðun PFS og Mílu, eiganda kerfisins, kom í ljós að girðingin, sem liggur samsíða símalínunni á kafla, er sannanlega truflanavaldurinn.

Til að bætt verði úr, þarf að færa girðinguna á 3,2 kílómtra kafla og áætlar eigandi girðingarinnar að breytingin muni kosta rúma milljón króna. Hvorki hann né Míla voru tilbúin til að taka þátt í kostnaðinum.

PFS skar hins vegar úr um að samkvæmt lögum bæri eiganda rafvirkis sem truflar fjarskipti að bera kostnað af úrbótum. Fær viðkomandi því frest til 8. júlí næstkomandi til að bæta úr. Ella er hægt að beita hann dagsektum, eða láta rjúfa straum á girðingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×