Innlent

Bærinn verji íbúana fyrir fótboltabullum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fótboltaáhorfendur hirða ekki um ábendingar íbúa og leggja í innkeyrslu Tröllakórs 5-7 og loka fyrir aðkomu að bílageymslu fjölbýlishússins.
Fótboltaáhorfendur hirða ekki um ábendingar íbúa og leggja í innkeyrslu Tröllakórs 5-7 og loka fyrir aðkomu að bílageymslu fjölbýlishússins. Myndir/Íbúar Tröllakórs 5-7
„Dónaskapurinn sem við höfum lent í er alveg ótrúlegur,“ segir Brynjar Þór Sumarliðason, einn íbúa í Tröllakór 5-7, sem leita nú ásjár Kópavogsbæjar vegna mikils ágangs áhorfenda á fótboltavellinum við Kórinn.

Brynjar segir svo hátta til í Tröllakór 5-7 að gott útsýni sé yfir fótboltavöll Kórsins þar sem innkeyrsla á lóðinni sveigi að bílskýli fjölbýlishússins. Áhorfendur sem nenni ekki að standa úti leggi margir bílum sínum hist og her og fylgist þaðan með leikjum. Sumir skilji bílana eftir og standi við völlinn. Iðulega sé lokað fyrir aðkomuna að bílageymslunni.

Lögreglan mætt. Sumir bíladólganna fást ekki burt nema með liðsinni lögreglunnar.Íbúar Tröllakórs 5-7
„Það fer ekki fram hjá neinum að þetta er einkalóð og sumir sjá strax að sér en aðrir rífa bara kjaft,“ segir Brynjar um viðtökurnar sem íbúarnir fá þegar þeir reyna að stugga við áhorfendahópnum í bílunum. Iðulega sé lögregla kölluð til og þá hafi sig loks allir á brott.

Brynjar segir að börn séu í slysahættu, gróður að skemmast, umferð um innkeyrsluna hindruð og að háreysti fylgi bílflautum. Íbúarnir hafi leitað til íþróttafélaganna, sem hafi tekið þeim af skilningi, en allt hafi komið fyrir ekki.

„Þetta hefur magnast mikið og farið út fyrir öll mörk. Okkur finnst nóg komið,“ segir Brynjar.

Útsýnið er gott yfir fótboltavöllinn í Kórnum af lóð Tröllakórs 5-7.Mynd/Íbúar Tröllakórs 5-7.
Í bréfi til bæjaryfirvalda óska íbúarnir eftir því að bærinn gróðursetji grenitré við lóðarmörkin svo útsýnið yfir fótboltavöllinn hverfi – og vonandi þar með líka yfirgangur áhorfendanna í bílunum. Með bréfinu fylgja myndir af bílum áhorfendanna í innkeyrslunni, meðal annars af bíl eins þjálfara sem íbúarnir segja „þverskallast“ við að vera góð fyrirmynd. Þjálfarinn sagðist í samtali við Fréttablaðið ekkert vilja segja um málið.

„Þegar við biðjum fólk sem situr í bílunum að færa bíla sína þá mætir okkur í langflestum tilfellum ekkert nema dónaskapur og fúkyrðaregn,“ segir í ákalli íbúanna sem orðið hefur til þess að fundi hefur verið komið á með fulltrúum þeirra og bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×