Skipið Þórsnes II losnaði af strandstað rétt í þessu, en Vísir greindi frá því í dag að skipið hefði strandað við Skoraeyjar á Breiðafirði. Aðgerðirnar gengu vel, en það var togarinn Helgi SH 135 sem freistaði þess að ná skipinu á háflóði. Togarinn er 143 tonn og 900 hestöfl.
Landhelgisgæslan stjórnaði vettvangsstjórn við Skoraeyjar. Gæslan vann í nánu samstarfi við lögregluna, Umhverfisstofnun og Slysavarnarfélagið við að losa skipið. Björgunarskip og bátar Landsbjargar voru einnig á staðnum til aðstoðar auk þyrlu Landhelgisgæslunnar, en hún flutti fulltrúa Umhverfisstofnunar og Olíudrefingar á staðinn. Mengunargirðing var um borð í björgunarbát ef um olíuleka reyndist vera.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er ekki útlit fyrir olíuleka, en skipið er nú á leið til hafnar þar sem það verður skoðað vandlega.
Þórsnes II á leið til hafnar

Tengdar fréttir

Hætta talin á olíumengun
"Við erum náttúrulega að tala um Breiðafjörðinn með sínu viðkvæma lífríki þannig að við sáum ástæðu til þess að fara á staðinn," segir Kristján Geirsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.