Innlent

Íslenska smjörið best í heimi

Jakob Bjarnar skrifar
Guðni setur alla fyrirvara á niðurstöður rannsóknarinnar en fái þær staðist eiga þær alls ekki við um íslenska smjörið.
Guðni setur alla fyrirvara á niðurstöður rannsóknarinnar en fái þær staðist eiga þær alls ekki við um íslenska smjörið.

Ný rannsókn leiðir í ljós að smjör hafi ekki góð áhrif á skapferli manna, geri þá afundna. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og nú framkvæmdastjóri samtaka afurðastöðva, gefur lítið fyrir þær rannsóknir.

Danskir fjölmiðlar kynntu í vikunni nýjar bandarískar rannsóknir sem leiða í ljós að smjörát, mettaðar fitusýrur, geri menn afundna, skapstygga og jafnvel árásargjarna. Næringarfræðingurinn Per Brændgaard tekur undir þetta og segir að vilji menn vera í betra skapi sé heillavænlegra að neyta olífuolíu. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, og nú framkvæmdastjóri samtaka afurðastöðva, telur þessar rannsóknir vafasamar.

"Þetta er náttúrlega eins og hver önnur vitleysa. Held ég. Vísindin eru nú ekki alltaf sannleikanum samkvæm. Margt sem er rannsakað og hefur þá komið á daginn að það eru hagsmunir á bak við. En, við skulum bara sleppa því öllu: Ég trúi því þá að íslenska smjörið sé þá andstæða þess smjörs sem hefur verið rannsakað. Við eigum, samkvæmt því sem meistarakokkarnir segja, besta smjör heimsins. Það er gult, það er mjúkt og ekkert er betra til að baka uppúr."

Guðni hefur löngum verið aðdáandi þess sem íslenskt er og þá ekki síst afurða íslensks landbúnaðar.



Guðni leggur lítinn trúnað við rannsóknina, en fái hún staðist þá eigi hún ekki við um íslenska smjörið. Hann bendir á, varðandi alla matvælaframleiðslu, að hóf sé á öllu best. Hófið sem skapar hamingjuna á öllum sviðum. "Ég hef tekið eftir því, þegar barnabörnin koma í heimsókn - þau verða aldrei vitlaus af smjöri! En, þau verða stjörnuvitlaus þegar amman er búin að gefa þeim sælgæti og gos."

Tilfinning Guðna fyrir rannsókninni er sú að hún fái staðist. "Og alls ekki varðandi íslenska smjörið. Því það er afburðasmjör."

Og, Guðni vitnar til vina sinna sérfræðinga á sviði mjólkurgerðar: "Við búum til okkar smjör úr ferskum rjóma. En víðast hvar annars staðar, í Evrópu og Ameríku, er rjóminn sýrður áður en smjörið er framleitt. Þetta er tvennt ólíkt í bragði; ég hef lúmskan grun um að það sé sýrði rjóminn sem geti hugsanlega framkallað þessa meintu geðvonsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×