Fótbolti

Toppliðin stungin af

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bayern tryggði sér þýska meistaratitilinn á laugardaginn en engu liði hefur áður tekist það svo snemma tímabils þar í landi. Hér er þjálfarinn Jupp Heynckes tolleraður.
Bayern tryggði sér þýska meistaratitilinn á laugardaginn en engu liði hefur áður tekist það svo snemma tímabils þar í landi. Hér er þjálfarinn Jupp Heynckes tolleraður.
Nú þegar lokaspretturinn er fram undan í flestum sterkustu deildum Evrópuboltans ætti samkvæmt venju að vera spennandi titilbarátta fram undan hjá bestu félagsliðum álfunnar, að minnsta kosti í nokkrum af bestu deildunum. En í Englandi, Þýskalandi, á Spáni, Ítalíu og í Frakklandi er forysta toppliðanna svo afgerandi að það er nánast forgangsatriði að krýna meistarana í viðkomandi löndum.

Reyndar er þegar búið að gera það í Þýskalandi. Bayern München varð meistari í 23. sinn með 1-0 sigri á Eintracht Frankfurt um helgina. Liðið er með 20 stiga forystu á Dortmund þegar aðeins átján stig eru eftir í pottinum.

Bayern með hæsta sigurhlutfallið

Slíkir hafa yfirburður Bayern München verið núna í vetur að liðið er með betra markahlutfall en Barcelona á Spáni. Bayern er með 66 mörk í plús og hefur aðeins fengið á sig þrettán mörk í leikjunum 28. Bæjarar eru einnig með hæsta sigurhlutfall allra toppliðanna, eins og sjá má neðst í greininni.

Manchester United getur í kvöld nánast gulltryggt sér titilinn með því að vinna núverandi meistara, grannliðið Manchester City. En þó svo að City ynni í kvöld væri erfitt að ímynda sér að United myndi henda frá sér tólf stiga forystu í síðustu sjö umferðunum.

Á Spáni er löngu ljóst að Barcelona verður meistari, þökk sé misjöfnu gengi Real Madrid í upphafi leiktíðar. Barcelona hefur „aðeins" unnið sex af síðustu níu leikjum sínum í deildinni en nánast engar líkur eru á því að liðið láti meistaratitilinn renna sér úr greipum úr þessu.

Milan-liðin í enduruppbyggingu

Aðeins meiri spenna er á Ítalíu og Frakklandi, þar sem forysta toppliðanna Juventus og PSG er innan við tíu stig. Sem stendur er þó fátt sem bendir til að liðin séu að slaka á klónni í sínum deildum.

Þessi lið eiga það sameiginlegt að vera í yfirburðastöðu hvað styrkleika leikmannahópsins varðar. PSG á moldríka eigendur sem hafa keypt marga góða leikmenn en Juventus hefur grætt á því að helstu erkifjendur liðsins, AC Milan og Inter, hafa misst sterka leikmenn og eru að byggja upp ný lið – enda er Napoli helsti keppinautur Juve um titilinn þetta árið.

Meiri spenna í Meistaradeildinni

Sem stendur er mesta óvissan og langmesta spennan í Meistaradeild Evrópu. Öll áðurnefnd topplið, nema Manchester United, komust í fjórðungsúrslit keppninnar og útlit fyrir æsispennandi undanúrslitarimmur og úrslitaleik.

England - Manchester United

77 stig eftir 30 leiki (2,57 að meðaltali)

15 stiga forysta á Manchester City

Spánn - Barcelona

78 stig eftir 30 leiki (2,60)

13 stiga forysta á Real Madrid

Ítalía - Juventus

71 stig eftir 31 leik (2,29)

9 stiga forysta á Napoli

Þýskaland - Bayern (meistari)

75 stig eftir 28 leiki (2,68)

20 stiga forysta á Dortmund

Frakkland - Paris SG

64 stig eftir 31 leik (2,06)

7 stiga forysta á Marseille




Fleiri fréttir

Sjá meira


×