Innlent

Framúrskarandi ungir Íslendingar

ósk skrifar
Tryggvi Freyr Elínarson er formaður framúrskarandi ungra íslendinga í ár.
Tryggvi Freyr Elínarson er formaður framúrskarandi ungra íslendinga í ár.

„Þetta eru verðlaun sem JCI-samtökin standa að baki, og eru veitt árlega. Þetta eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni,“ sagði Tryggvi F. Elínarson, formaður verkefnisins.

Framúrskarandi ungir Íslendingar eru hluti af alþjóðlegum verðlaunum sem veitt eru árlega af JCI-samtökunum. Fjölmargir heimsþekktir einstaklingar hafa unnið til verðlaunanna, til að mynda Elvis Presley og John F. Kennedy, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Íslendingar eiga tvo vinningshafa á heimsvísu en það eru þau Guðjón Már Guðjónsson frumkvöðull og Kristín Rós Hákonardóttir sundkona. „Það hlýtur að teljast ansi gott miðað við höfðatölu að við eigum þarna tvo vinningshafa á heimsvísu,“ sagði Tryggvi enn fremur.

Listi yfir þá sem tilnefndir hafa verið til verðlaunanna á Íslandi í ár hefur þegar verið birtur. Þeir tíu einstaklingar sem hann skipa eru Vilborg Arna Gissurardóttir, Sindri Snær Einarsson, Sigrún Björk Sævarsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir, Jón Margeir Sverrisson, Hilmar Veigar Pétursson, Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, Guðmundur Stefán Gunnarsson, Fida Muhammad Abu Libdeh og Elísabet Ingólfsdóttir. Þann 6. júní næstkomandi afhendir hr. Ólafur Ragnar Grímsson, verndari verkefnisins á Íslandi, verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×