Innlent

"Þetta á ekkert að vera svona"

Boði Logason skrifar
Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli í gær, sem er bæði heimavöllur HK og Breiðabliks.
Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli í gær, sem er bæði heimavöllur HK og Breiðabliks. Mynd/365

„Þetta kom mér svolítið óþægilega á óvart því við höfum átt góð samskipti við Breiðablik í gegnum tíðina,“ segir Ragnar Bogi Petersen, sem situr í stjórn meistaraflokks HK.

Eins og kom fram á Vísi í gærkvöldi lenti landsliðsmaðurinn í knattspyrnu Jóhann Berg Guðmundsson í óskemmtilegu atviki á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Ölvaður stuðningsmaður HK veittist að Jóhanni og vinum hans þar sem hann var ósáttur við það hvar þeir sátu í stúkunni.

Ragnar Bogi segir þetta leiðindaratvik og leiðinlegt sé að þetta hafi átt sér stað í viðureign þessara liða.

„Það var svolítið þétt setið Breiðbliksmegin í stúkunni, það komust ekki fleiri fyrir og þá fóru áhorfendur á HK svæðið, sem á að vera í lagi. Það eru einhverjir, sem voru búnir að fá sér aðeins of mikið neðan í því, sem voru eitthvað ósáttir við þetta,“ segir Ragnar Bogi.

„Ég veit ekki hver á upptökin, en við röbbuðum þarna við þá ásamt lögreglumönnum sem voru á vellinum. Það varð ekkert meira úr þessu og þetta var í góðum málum en þetta á ekkert að vera svona - menn eiga að geta hagað sér á svona leikjum,“ segir hann.

Áhorfendur þurfi að athuga að börn séu á vellinum, sem þarf að taka tillit til. „Það skiptir máli að koma vel fram svo þau séu ekki að horfa upp á svona vitleysu.“

Ragnar Bogi segir að leikurinn hafi farið vel fram og bæði lið hafi verið að spila fínan bolta. „Þrátt fyrir að við vorum færri í stúkunni, þetta bull á ekkert að vera í gangi.“

Breiðablik vann leikinn með fjórum mörkum gegn engu - og komust þar með áfram í 16-liða úrslit bikarsins.


Tengdar fréttir

Ölvaður stuðningsmaður HK réðist á Blika

Jóhann Berg Guðmundsson, atvinnumaður í fótbolta, lenti í óskemmtilegu atviki ásamt félögum sínum á fótboltaleik nágrannaliðanna HK og Breiðablik á Kópavogsvelli fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×