Enski boltinn

Reading með augastað á Gylfa og Birni Bergmanni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í leik með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í leik með Swansea. Nordic Photos / Getty Images
Enskir og norskir fjölmiðlar fjalla í dag um meintan áhuga á Gylfa Þór Sigurðssyni og Birni Bergmanni Sigurðarsyni.

Gylfi Þór hefur slegið í gegn með Swansea eftir áramót en þar er hann sem lánsmaður frá Hoffenheim í Þýskalandi.

Sjálfur hefur hann sagt vilja vera áfram í Englandi og hefur hann verið orðaður við mörg lið þar í landi. Nú síðast við hans gamla lið, Reading, sem vann sér í gær sæti í ensku úrvalsdeildinni á ný.

Gylfi kom til Reading sextán ára gamall en félagið seldi hann í ágúst árið 2010 fyrir meira en 6,5 milljónir punda. Enski miðillinn Talksport segir að Brian McDermott, stjóri Reading, hafi áhuga á að fá Gylfa aftur í raðir félagsins.

Reading er að fá nýjan eiganda, hinn rússneska Anton Zingarevich sem er sagður ætla sér að styrkja liðið með sterkum leikmönnum í sumar auk þess sem hann ætli sér stóra hluti með liðið í framtíðinni.

Fótbolti.net greindi frá meintum áhuga félagsins á Birni Bergmanni í dag og vísaði í norska staðarblaðið Romerikes Blad. Þar er fullyrt að fulltrúi Reading hafi fylgst með Birni Bergmanni spila nýverið.

Björn Bergmann hefur þótt standa sig vel í Noregi að undanförnu og hefur til að mynda verið líkt við Svíann Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×