Innlent

Greiðsluþak dregur úr notkun dýrra lyfja

Lækkun kostnaðar sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja skýrist einkum af breyttri greiðsluþátttöku.
Lækkun kostnaðar sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja skýrist einkum af breyttri greiðsluþátttöku.
Árangur af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr lyfjakostnaði hefur skilað gríðarlegum árangri, að sögn Guðrúnar Gylfadóttur, deildarstjóra lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands. „Í fyrra lækkaði kostnaðurinn þriðja árið í röð. Kostnaður sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja lækkaði til dæmis um 575 milljónir króna frá árinu 2009 til 2011 eða um 53 prósent,“ greinir Guðrún frá.

Árið 2009 voru þunglyndislyf kostnaðarsamasti lyfjaflokkur sjúkratrygginga en þau eru nú í fimmta sæti.

Guðrún segir lækkunina einkum skýrast af breytingum á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. „Þá dró verulega úr notkun dýrari lyfja auk þess sem verð nokkurra lyfja lækkaði mikið, meðal annars með tilkomu nýrra samheitalyfja á markaðinn.“

Örvandi lyf, lyf notuð við ADHD (ofvirkni og athyglisbresti) og lyf sem efla heilastarfsemi, voru sá lyfjaflokkur sem sjúkratryggingar vörðu mestum útgjöldum til í fyrra en sá lyfjaflokkur var í fimmta sæti árið 2009.

Fyrir tveimur árum skipaði velferðarráðherra vinnuhóp sem lagði til ýmsar tillögur til að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun þessara lyfja. Hert var á útgáfu lyfjaskírteina frá 1. janúar 2011 og aftur 1. júní síðastliðinn en þá var greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum einnig breytt.

Aðeins verður um greiðsluþátttöku vegna geðrofslyfja að ræða þegar verð á skilgreindum dagskammti er 600 krónur eða lægra. Þó verður hægt að sækja um lyfjaskírteini fyrir öðrum geðrofslyfjum hafi meðferð reynst vel.

Guðrún segir helstu markmið með breytingunum vera að hvetja til ávísunar á hagkvæmari lyf sem fyrsta val í meðferð til samræmis við notkun í nágrannalöndunum. Jafnframt að draga úr notkun lyfja utan skráðrar notkunar. „Við höfum verið í góðu samstarfi við geðlækna. Þeir vita að rökstyðja þarf hvers vegna sjúklingur getur ekki notað ódýrari lyfin.“

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×