Enski boltinn

Coleman líklegur arftaki Speed

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Coleman er venjulega snyrtilega til fara á hliðarlínunni.
Coleman er venjulega snyrtilega til fara á hliðarlínunni. Nordic Photos / Getty Images
Allt útlit er fyrir að Chris Coleman verði næsti landsliðsþjálfari Wales í knattspyrnu. Walesverjar hafa verið án landsliðsþjálfara síðan Gary Speed tók eigið líf í lok nóvember. Coleman mun funda með forráðamönnum knattspyrnusambands Wales í vikunni en hann hefur áhuga á starfinu

„Ég er beggja blands varðandi þetta mál því ef ég enda á því að taka við starfinu verð ég afar glaður. Í fullkomnum heimi væri ég hins vegar ekki hér þar sem einn af mínum bestu vinum væri enn í starfi. En hann er ekki lengur meðal vor," sagði Coleman sem hefur þjálfað Fulham, Real Sociedad, Coventry og Larissa síðan hann lagði skóna á hilluna.

Speed hafði náð afar góðum árangri með landslið Wales undanfarin misseri. Liðið hafði meðal annars rokið upp styrkleikalista FIFA og var mikil ánægja með störf Speed sem landsliðsþjálfara.

John Hartson, fyrrum framherji landsliðsins, er annar Walesverji sem hefur lýst yfir áhuga á starfinu en hann segir sjálfur líklegast að Coleman hneppi hnossið.

„Orðið á götunni er að hann verði ráðinn í vikunni og ég óska honum góðs gengis," sagði Hartson í samtali við BBC fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×