Enski boltinn

Dean Windass reyndi að fyrirfara sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Windass fagnar sæti Hull í efstu deild vorið 2008.
Windass fagnar sæti Hull í efstu deild vorið 2008. Nordic Photos / Getty Images
Dean Windass, fyrrum sóknarmaður Hull City, hefur viðurkennt að hafa reynt að taka eigið líf eftir baráttu við áfengi og þunglyndi sem hófst þegar knattspyrnuskórnir fóru á hilluna fyrir tveimur árum.

Windass, sem skoraði markið sem tryggði Hull sæti í efstu deild enska boltans í fyrsta skipti í 104 ár á vordögum 2008, spilaði einnig í úrvalsdeildinni með Bradford og Middlesbrough. Atvinnumannaferlinum, sem spannaði 19 ár, lauk árið 2010.

„Ég hef grátið hvern einasta dag þau tvö ár síðan ég lagði skóna á hilluna. Fólk utan knattspyrnunnar heldur að við höfum það svo gott. Ég upplifði mig hins vegar í holu og vissi í sannleika sagt ekki hvernig ég gæti komist upp úr henni," sagði Windass við People-tímaritið. „Fyrir viku leið mér verr en nokkru sinni og ákvað að binda endi á þetta allt saman."

„Fyrst tók ég of stóran skammt af lyfjum og þegar það mistókst reyndi ég að hengja mig. Ég var svo einmana og taldi mig ekki hafa neitt til þess að lifa fyrir. Ég þarf að taka til í mínum málum sem er ástæða þess að ég er að segja heiminum frá þessu. Það er hluti þess að verða betri, hluti af meðferðinni," segir Windass sem skildi meðal annars við konu sína eftir að knattspyrnuferlinum lauk.

Windass, sem hafði á hátindi ferilsins um 100 milljónir í árstekjur, segist hafa tapað nánast öllum peningunum. Nú hafi hann engar tekjur og lifi á þeim litlu peningum sem eftir séu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×