Enski boltinn

Sir Alex segir að Giggs geti spilað með Manchester United til fertugs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson og Ryan Giggs.
Alex Ferguson og Ryan Giggs. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er viss um að Ryan Giggs geti spilað með liðinu í tvö ár til viðbótar en velski miðjumaðurinn verður þá orðinn 40 ára gamall.

Ryan Giggs gæti spilað sinn 600. úrvalsdeildarleik þegar United mætir Wigan á morgun en hann er ekki sá eini í liðinu sem stendur á tímamótum því næsti leikur Paul Scholes verður sá 700. fyrir félagið í öllum keppnum.

Ferguson er viss um að Giggs endist lengur en Scholes sem er 37 ára gamall eða einu ári yngri en Giggs. „Ryan gæti spilað tvo tímabil til viðbótar. Paul er öðruvísi byggður og hefur líka verið að glíma meira við meiðsli," sagði Sir Alex Ferguson.

Ferguson segir þessa leikmenn ásamt Rio Ferdinand (næsti leikur númer 400 fyrir Manchester United) vera sterkar og mikilvægar fyrirmyndir í búningsklefanum fyrir yngri leikmenn Manchester United liðsins.

„Þeir eru frábærar fyrirmyndir fyrir ungu strákana sem sjá í þeim hvað þeir geta afrekað ef þeir fórna sér fyrir fótboltann. Þessir þrír leikmenn hafa allir gert það því annars væru þeir aldrei í þessari stöðu í dag," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×