Innlent

Ólafur Elíasson vill bæta lífsgæði milljóna með sólarknúnum lampa

Ólafur vonast til að lampinn muni í framtíðinni bæta lífsgæði fólks á svæðum þar sem rafmagn er af skornum skammti.
Ólafur vonast til að lampinn muni í framtíðinni bæta lífsgæði fólks á svæðum þar sem rafmagn er af skornum skammti.
Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur ásamt danska athafnamanninum Frederik Ottesen stofnað fyrirtækið Little Sun sem framleiðir ódýrar sólarknúnar vörur til heimilisnota. Markmiðið er að selja vörurnar til heimshluta þar sem rafmagn er af skornum skammti.

„Reynslan hefur kennt mér að í gegnum listsköpun getur maður haft ótrúleg áhrif á heiminn. Þannig getur sólarknúinn lampi bætt lífsgæði milljóna manna sem búa á stöðum þar sem rafmagn fæst varla nema með miklum tilkostnaði," bendir Ólafur á, þegar hann er spurður út í hugmyndina sem liggur að baki Little Sun.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að í kringum 1,6 milljarðar manna búi á slíkum landsvæðum. Þeir borgi um það bil 324 sinnum meira fyrir lýsingu en þeir sem hafi greiðan aðgang að rafmagni og ljósaperum. Af þeim sökum hafi Little Sun nú sett á markað sólarknúinn lampa sem gefi tíu sinnum meiri lýsingu á tíu sinnum lægra verði heldur en steinolíulampi.

Sólarknúni lampinn, sem er í laginu eins og hringur, er lítill, léttur og þykir vera meðfærilegur á allan hátt. Hann má hengja eða stilla upp nánast hvar sem er, á meðan og eftir að hleðslu lýkur og getur þannig lengt dag fjölda fólks til náms, vinnu eða annarra athafna.

Ólafur Elíasson kynnti Little Sun á DLD ráðstefnunni í Munchen á dögunum.Mynd/Anton
Ólafur mun hafa yfirumsjón með allri vöruhönnun hjá Little Sun þar sem fleiri sólarknúnir hlutir eru á teikniborðinu. Þar á meðal stærri lampi, hleðslutæki fyrir farsíma, lítil rafhlaða og útvarpstæki. Allt saman verður fjöldaframleitt og selt fyrir aðeins brot af því verði sem sambærilegar vörur kosta, til þess að það fái sem mesta dreifingu. Framleiðslan verður þó látin ráðast af þeim viðtökum sem lampinn hlýtur.

roald@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.