Erlent

Fær bætur fyrir pyntingar í Kabúl

Hann barðist árum saman fyrir því að mál hans yrði tekið fyrir hjá dómstólum í Bandaríkjunum og Evrópuríkjum.
Hann barðist árum saman fyrir því að mál hans yrði tekið fyrir hjá dómstólum í Bandaríkjunum og Evrópuríkjum. NORDICPHOTOS/AFP
Þýskum leigubílstjóra var rænt í Makedóníu árið 2003, hann fluttur til Afganistans með leynd og pyntaður þar í fangelsi bandarísku leyniþjónustunnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nú dæmt Makedóníustjórn til að greiða honum skaðabætur.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að þýski bílasalinn Khaled el Masri hefði þolað bæði pyntingar og aðrar misþyrmingar af hálfu bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Afganistan á árinu 2003.

El Masri segir að sér hafi verið rænt í Makedóníu árið 2003. Þaðan hafi hann verið fluttur með leynd til Afganistans þar sem hann sætti harkalegum yfirheyrslum mánuðum saman í fangelsi í útjaðri höfuðborgarinnar Kabúl, skammt frá alþjóðaflugvellinum þar í borg. Fangelsið var á vegum bandarísku leyniþjónustunnar og jafnan nefnt „Saltgryfjan“.

Hann fullyrðir að Bandaríkjamenn hafi á endanum áttað sig á því að enginn fótur væri fyrir grun þeirra um að hann tengdist hryðjuverkastarfsemi á einhvern hátt. Þá hafi hann verið fluttur með leynd til Albaníu og látinn þar laus einn síns liðs í fjallshlíð.

Mannréttindadómstóllinn segir engan marktækan vafa leika á því að frásögn hans sé sönn.

Mál el Masris er eitt af fjölmörgum sem snúast um ólögleg mannrán bandarísku leyniþjónustunnar, ólöglega leyniflutninga með fórnarlömb slíkra mannrána og pyntingar og misþyrmingar þeirra í fangelsum leyniþjónustunnar, allt í tengslum við baráttu Bandaríkjastjórnar gegn hryðjuverkum.

Þetta er fyrsti dómur Mannréttindadómstólsins í slíku máli, en einungis var skoðaður hlutur Makedóníustjórnar í afdrifum el Masris. Samkvæmt úrskurðinum ber Makedónía ábyrgð á misþyrmingum sem el Masri sætti í Makedóníu og eftir að hann var fluttur til Afganistans.

Makedóníustjórn segist fallast á þessa niðurstöðu og hyggst greiða el Masri bæturnar. Bandaríska leyniþjónustan hefur neitað að tjá sig um dóminn.

El Masri barðist árum saman fyrir því að fá mál sitt tekið fyrir hjá dómstólum í Bandaríkjunum og í Evrópuríkjum. Árið 2010 var el Masri dæmdur í fangelsi í Þýskalandi fyrir líkamsárás á borgarstjórann í þýsku borginni Ulm. Eftir það sleit hann allt samband við fjölskyldu sína og lögmenn.

„Ég vona að þetta gefi honum örlítið meiri trú aftur á það að jafnvel lítill maður sem flækist inn í glæpi stórra ríkja geti átt möguleika á að njóta réttinda sinna,“ segir Manfred Gnjidic, lögmaður Masris. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×