Fótbolti

Platini: EM 2020 gæti farið fram í 12-13 borgum um alla Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Michael Platini, forseti Evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, hefur viðrað þá hugmynd að leikjum á Evrópumótinu árið 2020 verði dreift um alla Evrópu.

„Keppnin gæti farið fram á tólf leikvöngum í einu landi eða á velli í tólf til þrettán borgum. Þetta er bara hugmynd en flugfargjöld eru orðin svo ódýr að allt er mögulegt."

Tyrkir voru taldir líklegastir til að hreppa hnossið árið 2020 en boð þeirra um að halda Ólympíuleikana sama ár hafa minnkað líkurnar á því.

Platini sagði á blaðamannafundi að hugmyndin um keppni í ólíkum löndum Evrópu yrði rædd á næsta fundi framkvæmdaráðs UEFA sem myndi taka ákvörðunina í síðasta lagi í janúar.

„Það munu fara fram alvarlegar umræður um þessa hugmynd. Við munum eiga frábærar rökræður um mótið 2020 og velta fyrir okkur kostum og göllum."

Fróðlegt verður að sjá hvað umhverfisverndarsinnum þykir um fullyrðingar Platini um ódýr flugfargjöld. Útblástur koltvísýrings úr flugvélum er talin ein af stóru ástæðunum fyrir hlýnunar jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×