Innlent

Tryggingastofnun fór ekki að lögum

Umboðsmaður átelur Úrskurðarnefnd almannatrygginga fyrir svör við bréfi embættisins.
Umboðsmaður átelur Úrskurðarnefnd almannatrygginga fyrir svör við bréfi embættisins. Fréttablaðið/pjetur
Tryggingastofnun og Úrskurðarnefnd almannatrygginga fóru ekki að lögum þegar umsókn foreldra fatlaðs drengs um styrk til bílakaupa var hafnað árið 2010. Þetta er niðurstaða Umboðsmanns Alþingis, sem birti álit í þá veru í gær.

Drengurinn er bundinn við hjólastól. Foreldrar hans fengu styrk til bílakaupa árið 2007 og sóttu svo aftur um styrk árið 2010. Samkvæmt lögum má aðeins fá styrk á fimm ára fresti, nema ef bíllinn eyðileggst.

Tryggingastofnun og Úrskurðarnefndin túlkuðu undanþáguákvæðið þannig að það ætti bara við ef bíll eyðilegðist skyndilega, til dæmis í umferðarslysi, en í tilfelli fólksins sem sótti um styrk bilaði hann og það svaraði ekki kostnaði að gera við hann.

Umboðsmaður telur túlkun Tryggingastofnunar og Úrskurðarnefndarinnar of þrönga og ganga gegn því markmiði styrksins að gera fötluðum kleift að stunda vinnu, skóla og endurhæfingu. Hann æskir þess að mál fólksins verði tekið upp að nýju.

Umboðsmaður átelur jafnframt Úrskurðarnefndina fyrir að svara bréfi sínu með því að ítreka bara fyrri úrskurð og segjast ekki sjá ástæðu til að svara spurningunum sem í því voru nema þess væri sérstaklega óskað.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×