Innlent

Laupur stöðvar skólabjölluna

Nemendur og starfsmenn bíða spenntir eftir því að heyra í ungunum.
Nemendur og starfsmenn bíða spenntir eftir því að heyra í ungunum. fréttablaðið/pjetur
Það er ekki lengur hringt inn úr frímínútum með rafknúinni bjöllu í Austurbæjarskóla. Bjallan var aftengd þegar í ljós kom laupur, sem er hreiður hrafns, nálægt henni yfir aðalinnganginum.

„Við sáum laupinn þegar við komum úr páskafríi og við vildum ekki að það kæmi styggð að hrafninum. Þess vegna hringjum við inn handvirkt,“ segir Guðmundur Sighvatsson skólastjóri sem sjálfur lætur bjölluna hljóma úti í portinu.

En það er ekki bara þegar hringja þarf með bjöllunni sem skólastjórinn er úti í porti. Hann hefur í allan vetur sinnt þar gæslustörfum í frímínútum ásamt kennurum og skólaliðum.

„Mig skorti fjármagn til þess að borga nógu mörgum kennurum fyrir gæsluna. Ég gat fækkað einum gæslumanni með því að fara sjálfur út. Það má spara á því. Það kostar ekkert að hafa mig úti.“

Guðmundur segist kynnast nemendum á annan hátt úti á skólalóðinni, heldur en innandyra. „Þegar ég er úti fæ ég allt sem er að gerast beint í æð. Krakkarnir hafa jafnframt tekið þessu vel. Þeim finnst fínt að hafa karlinn úti.“- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×