Innlent

Milljarður í endurbætur lauga

Endurnýjun á Laugardalslaug er komin vel á veg og hefur mælst vel fyrir.
Fréttablaðið/stefán
Endurnýjun á Laugardalslaug er komin vel á veg og hefur mælst vel fyrir. Fréttablaðið/stefán
Gert er ráð fyrir einum milljarði króna í fjárframlög Reykjavíkurborgar til endurbóta á sundlaugum borgarinnar næstu þrjú árin. Meðal verkefna sem unnið verður að á þessu ári eru ný leiktæki við sundlaugarnar, heitir pottar, endurgerð búningsaðstöðu, eimböð og almennar viðgerðir.

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum sérstakt átaksverkefni sem gerir ráð fyrir 500 milljóna króna framlagi í endurbætur lauganna í ár, 400 milljónum á næsta ári og 70 milljónum árið 2014.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir í tilkynningu að með verkefninu komi saman áhersla á atvinnumál og mannaflsfrek verkefni og áhersla á laugarnar sem mega vel við viðhaldi.

„Við erum líka að gera vel við laugarnar því fáir staðir eru eins eftirsóttir af ferðafólki og síðast en ekki síst eru sundlaugarnar risastórt lýðheilsumál fyrir Reykvíkinga á öllum aldri,“ segir Dagur. Endurnýjun sundlauganna sé ein aðaláhersla framkvæmdaáætlunar borgarinnar.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×