Innlent

Vel horfir með Evrópustyrk til rannsókna á eldfjöllum

Evrópuverkefnið snýst um Ísland og íslensk eldfjöll; Heklu, Kötlu og eldstöðvarnar í Vatnajökli.
Evrópuverkefnið snýst um Ísland og íslensk eldfjöll; Heklu, Kötlu og eldstöðvarnar í Vatnajökli. fréttablaðið/vilhelm
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands mun í samvinnu við Veðurstofu Íslands leiða samevrópskt verkefni 26 rannsóknastofnana og fyrirtækja sem góðar líkur eru á að verði fjármagnað með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnið nefnist Evrópsk ofurstöð í eldfjallafræði á Íslandi (FutureVolc).

Um er að ræða mjög stórt Evrópuverkefni með íslenskri verkefnastjórn ef af verður og nemur styrkupphæðin um sex milljónum evra eða tæpum milljarði íslenskra króna. Þriðjungur styrkupphæðarinnar nýtist íslenskum stofnunum og fyrirtækjum beint. Rannsóknirnar, hvar sem þær verða unnar, tengjast allar Íslandi, íslenskum eldstöðvum og tækjabúnaði sem hér er þegar.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ, segir styrkinn ekki í hendi en umsókninni hafi verið afar vel tekið enda fékk hún hæstu mögulegu einkunn í matsferlinu. Verkefnið nær til tíu Evrópulanda og er hugsað til þriggja og hálfs árs.

Meginmarkmið verkefnisins er að hanna samhæft vöktunarkerfi fyrir eldfjöll og samstarfsnet fyrir eldfjallarannsóknir. Þetta verður gert með því að samþætta niðurstöður frá mismunandi mæliaðferðum og tækjum; jarðskjálftamælum, mælingum á jarðskorpuhreyfingum og gasstreymi. „Þegar eldgos verða á að samþætta gögn til að meta betur magn gosefna sem kemur frá eldstöðinni og hvað gosmökkurinn er efnismikill,“ segir Freysteinn.

Annað markmið er að þróa aðferðir til að bæta flæði upplýsinga til almannavarna og yfirvalda í Evrópu. Verkefnið stuðlar þannig að betri upplýsingagjöf til þeirra sem gefa út viðvaranir til flugfélaga vegna öskuburðar.

Verkefnið snýst um Ísland og íslensk eldfjöll en þróaðar verða aðferðir og kerfi sem nýtast annars staðar í heiminum. Virkustu eldfjöll Íslands eru áherslusvæði verkefnisins; Katla, Hekla, Grímsvötn og aðrar eldstöðvar í Vatnajökli. Ef vel tekst til fæst forskrift að því hvernig á að standa að rannsóknum annars staðar.

Ef af verður koma yfir 100 vísindamenn að verkefninu. Á Íslandi, auk Jarðvísindastofnunar og Veðurstofunnar, kemur almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra að vinnunni auk tveggja einkafyrirtækja; Samsýnar og Miracle sem koma meðal annars að hönnun gagnagrunns. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×