Innlent

Þróa ætti miðstöð doktorsnáms í HÍ

Í skýrslunni er lagt til að á grunni miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði þróuð miðstöð doktorsnáms. Þar gætu allir háskólar, rannsóknastofnanir og fyrirtæki sameinað krafta sína. fréttablaðið/vilhelm
Í skýrslunni er lagt til að á grunni miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði þróuð miðstöð doktorsnáms. Þar gætu allir háskólar, rannsóknastofnanir og fyrirtæki sameinað krafta sína. fréttablaðið/vilhelm
Þróa ætti miðstöð doktorsnáms hér á landi þar sem allir háskólar, rannsóknarstofnanir og rannsóknafyrirtæki gætu sameinað krafta sína. Hægt væri að byggja slíka miðstöð á grunni miðstöðvar framhaldsnáms sem nú þegar er fyrir hendi í Háskóla Íslands.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að skýrslu Vísinda- og tækniráðs, sem kynnt voru í síðustu viku. Í skýrslunni er í fyrsta sinn dregin upp heildstæð mynd af þeim háskólum, stofnunum, sjóðum og þeirri löggjöf sem vísinda- og nýsköpunarkerfið byggir á. Ráðið samþykkti fyrir ári að fela starfshóp að gera tillögur um einföldun á öllu kerfinu. Breytingatillögurnar eiga að efla vísindi og nýsköpun í landinu og verðmætasköpun í samfélaginu.

Ísland stendur að ýmsu leyti á góðum grunni í þessum málaflokki að mati skýrsluhöfunda. Hlutfallslega mikið fjármagn er veitt til rannsókna og þróunarstarfs og fáar þjóðir hafa náð jafn góðum árangri í birtingu vísindagreina miðað við höfðatölu. „Á sama tíma er kerfið sem styður við vísinda- og nýsköpunarstarf svo og skipulag vísinda og nýsköpunarkerfisins bæði brotakennt og óskilvirkt. Þetta birtist meðal annars í því að heildarárangur er ekki í samræmi við hversu mikið fjármagn er veitt í kerfið.“ Sérstaklega er árangur á sviðum verðmætasköpunar í atvinnulífinu lakur.

Sautján milljarðar króna fara á þessu ári úr opinberum sjóðum í vísindi og nýsköpun. Fjármagn til stofnana, háskóla og sjóða hefur rýrnað um fimm milljarða frá 2008. Á sama tíma hefur atvinnulífið veikst mjög. „Við lifum auðvitað óvenjulega tíma og óumflýjanlegan niðurskurð í opinberum útgjöldum, en þessi mikla blóðtaka hefur hvorki leitt til skipulagsbreytinga né nýrrar hugsunar í kerfinu.“

Hér á landi eru 84 prósent opinbers fjár til vísinda og nýsköpunar bundin í fjárveitingum til stofnana en aðeins 16 prósent eru veitt í samkeppni. „Við teljum brýnt að það verði sýnilegt að skattfé þjóðarinnar renni til þeirra verkefna, háskóla og stofnana sem skila mestum árangri og að jafnræði sé tryggt,“ segir meðal annars í skýrslunni.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×