Lífið

Munkahandrit í undanúrslitum

Björn Brynjúlfur Björnsson hefur fengið góða dóma fyrir handrit sitt að myndinni Sumarið 800.
Björn Brynjúlfur Björnsson hefur fengið góða dóma fyrir handrit sitt að myndinni Sumarið 800.
„Það er gaman að fá klapp á bakið,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Björn Brynjúlfur Björnsson.

Handrit hans að myndinni Sumarið 800 er eitt af 35 handritum sem eru komin í undanúrslit bandarísku keppninnar Bluecatsscreenplay. 2.300 handrit voru send í keppnina á síðasta ári. Handrit Björns er eitt af fjórum utan Bandaríkjanna og Bretlands sem eru enn eftir í keppninni.

Tilkynnt verður um fjögur bestu handritin 15. mars og viku síðar verður tilkynnt um sigurvegarann. Fyrir efsta sætið eru peningaverðlaun upp á 1.250.000 krónur en Björn segist ekki vera að sækjast eftir þeim. „Ég sendi þetta inn því þeir eru með alvöru fólk sem les handrit og gefur manni skriflegt álit,“ segir Björn, sem var í fimm ár að skrifa handritið.

Undirbúningur fyrir tökur stendur nú yfir og mun Saga Film framleiða. Myndin gerist á Íslandi sumarið 800 þegar írskir munkar bjuggu hérna. „Þarna er verið að lengja Íslandssöguna. Hún byrjar þá um 800 en ekki 874.“

Björn leikstýrir myndinni. Hann hefur áður leikstýrt Kaldri slóð og sjónvarpsþáttunum Mannaveiðar. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.