Enski boltinn

Allra augu beinast að þessum leik

Kjartan Guðmundson skrifar
Sigurður Hlöðversson.
Sigurður Hlöðversson.
Sigurður Hlöðversson, útvarpsmaður, hugmyndasmiður og ritari Stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi, sér ekki fyrir sér nein risavandamál tengd stórleiknum á Anfield í dag.

„Ég hugsa að allir komist heilir frá leiknum, bæði leikmenn og áhorfendur, en það verður svakaleg spenna og allra augu munu beinast að þessum leik. Síðustu árin hafa ekki verið vandræði milli stuðningsfólks þessara liða, engin slagsmál og engin læti.

Menn hafa verið að syngja söngva um hitt liðið í stúkunni og svona rígur er bara eðlilegur og skemmtilegur, svo lengi sem ekki er verið að níða menn niður heldur hía á þá.

Liverpool átti lengi metið yfir flesta Englandsmeistaratitla og hafði montréttinn, sem núna hefur færst yfir til Manchester United og það virðist ekkert sérstaklega bjart fram undan hjá Liverpool þessa dagana. Stuðningsmenn liðsins mega heldur ekki við miklu því það er vel fylgst með þeim. En þetta er alltaf eins, það er alltaf þröngur hópur sem skemmir fyrir heildinni."

Sigurður telur að Alex Ferguson eigi að láta Patrice Evra spila leikinn. „Ég held að það hafi ekki hvarflað að Ferguson að spila honum ekki. Ég held að hann lesi varla blöðin og taki ekki eftir neinu umtali heldur meti hlutina út frá sjálfum sér. Þetta er svipað og ef ríkisstjórn Íslands hegðaði sér í samræmi við símatíma Útvarps Sögu. Það þykjast allir vita hvernig á að gera hlutina."

Sigurður spáir sínum mönnum 0-2 sigri á Anfield í dag. „Ég ætla að leyfa mér að spá því að ef Evra spilar leikinn þá skorar hann síðara markið og gerir allt vitlaust."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×