Lífið

Ungar stúlkur fá að rokka í friði

Áslaug Einarsdóttir, mannfræðingur og kvikmyndagerðarkona, fékk styrk frá Menningarsjóði Hlaðvarpans til að koma á laggirnar rokksumarbúðum fyrir stúlkur.fréttablaðið/gva
Áslaug Einarsdóttir, mannfræðingur og kvikmyndagerðarkona, fékk styrk frá Menningarsjóði Hlaðvarpans til að koma á laggirnar rokksumarbúðum fyrir stúlkur.fréttablaðið/gva
Áslaug Einarsdóttir hlaut á fimmtudaginn styrk frá Menningarsjóði Hlaðvarpans til að koma á laggirnar rokksumarbúðum fyrir stúlkur. Þetta er í fimmta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og voru alls veittir átján styrkir en aldrei hafa borist jafn margar umsóknir og í ár.

„Rokkbúðirnar eru að bandarískri fyrirmynd og er hugsunin á bak við þær að búa til öruggt rými þar sem stelpur geta ófeimnar prófað sig áfram í tónlist undir leiðsögn íslenskra tónlistarmanna,“ útskýrir Áslaug sem er mannfræðingur að mennt og hefur einnig unnið að gerð kvikmynda.

Búðirnar eru ætlaðar stúlkum á aldrinum tólf til sextán ára og standa yfir í heilan mánuð. Stúlkurnar þurfa ekki að hafa neinn bakgrunn í tónlist heldur er þeim kennt á hljóðfæri í búðunum af reyndum rokktónlistarmönnum. „Þær þurfa bara að hafa áhugann, svo mynda þær hljómsveitir og vinna saman undir leiðsögn tónlistarmanna sem munu kenna þeim á hljóðfærin, að semja lög og texta og sviðsframkomu. Í lok mánaðarins verða haldnir lokatónleikar með öllum sveitunum.“

Áslaug er sjálf píanó- og hljómborðsleikari sveitarinnar Just Another Snake Cult og segir mikinn kynjahalla innan rokktónlistarinnar enda fái stelpur síður rokkhljóðfæri að gjöf og eru ólíklegri til að stofna eða spila í hljómsveitum en strákar. „Ég hef lengi haft áhuga á femíniskum aktívisma og finnst mikilvægt að stelpur fái ungar hvatningu til að gera allt það sem þær vilja gera.“ Innt eftir því í hvað hún muni nýta styrkinn frá Hlaðvarpanum segir Áslaug að hann muni fara í hljóðfærakaup og kynningarmál. „Það er í mörg horn að líta og þess vegna kemur þessi styrkur sér ofsalega vel,“ segir Áslaug að lokum. Hún tekur glöð á móti ábendingum um notuð hljóðfæri á netfangið rokksumarbudir@gmail.com. Rokksumarbúðirnar verða auglýstar nánar í vor. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×