Innlent

Flugeldaruslið skilið eftir á götum

Þessir drengir voru búnir að safna saman flugeldarusli úr hverfinu og búa til þennan skúlptúr þegar ljósmyndari Fréttablaðsins hitti þá í gær. 
fréttablaðið/anton
Þessir drengir voru búnir að safna saman flugeldarusli úr hverfinu og búa til þennan skúlptúr þegar ljósmyndari Fréttablaðsins hitti þá í gær. fréttablaðið/anton
Starfsmenn umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar reyna eftir föngum að hreinsa upp flugeldarusl eftir áramótin, að sögn Arnar Sigurðssonar, skrifstofu- og sviðsstjóra á Umhverfis- og samgöngusviði.

„Við myndum helst vilja að fólk gerði þetta sjálft. Það bara stendur upp frá þessu á götuhornum og gangstéttum og labbar í burtu,“ segir Örn. „Auðvitað á fólk ekki að skilja eftir sig sorp eða úrgang á víðavangi.“

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn aðallega verið í snjómokstri og haft meira en nóg að gera. Örn segir þó að helstu svæðin, í kringum brennur og önnur slík svæði, séu hreinsuð af flugeldarusli strax eftir áramót.

Starfsfólk borgarinnar hefur einnig biðlað til fólks að moka frá sorptunnum til að auðvelda sorphirðumönnum vinnuna. Örn segir það hafa gengið afskaplega illa. Sorphreinsun er á eftir áætlun vegna veðursins, en starfsfólk mun vinna að sorphirðu um helgina til þess að vinna það upp. Örn segir mikilvægt að hreinsa frá tunnunum á þeim dögum sem fólk býst við sorphirðu. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×